Innlent

Strax merki um vandamál árið 2003

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Tryggvi mætti fyrir Landsdóm í dag.
Tryggvi mætti fyrir Landsdóm í dag. mynd/ gva.
Það er þumalputtaregla að ef banki eykur útlán um meira en 15 prósent á ári, þá er það merki um of mikla áhættu. Þetta sagði Tryggvi Pálsson, sem var ritari samráðshóps um fjármálastöðugleika, þegar hann bar vitni í Landsdómi í dag. Tryggvi sagði að íslensku bankarnir hefðu vaxið miklu meira en þetta. Bankarnir hefðu einkum vaxið á árunum 2003 – 2004 og þá hefði ör vöxtur þeirra strax verið farinn að valda þeim vandræðum.

Tryggvi segir að vel hafi tekist til við að bregðast við áfallinu sem varð. Fyrir Landsdómi í dag sagðist hann hafa skrifað grein sem hafi meðal annars birst á Vísi um það hvað hafi vel tekist til. „Ég tel að þegar á hólminn var komið hafi vel tekist til við samningu neyðarlaga og alþingi og ríkisstjórn tekið vel á því,“ sagði Tryggvi. Yfirlýsingin um innlánstryggingar hafi líka verið rétt. Þessir þættir hafi allir tekist vel. „Plús greiðslumiðlunarkerfið sem við bárum hitann og þungann af þó ýmsir hafi viljað taka þá skrautfjöður af okkur. Ég tel að þetta hafi tekist mjög vel,“ sagði Tryggvi.

Tryggvi Pálsson er framkvæmdarstjóri fjármálasviðs Seðlabanka Íslands og það var vegna þess starfs sem hann vann fyrir samráðshópinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×