Innlent

Eiginfjárstaðan virtist góð

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Allar vísbendingar bentu til þess að eiginfjárstaða bankanna væri í lagi fyrir hrun, sagði Árni Mathiesen, fyrrverandi fjármálaráðherra, fyrir Landsdómi í dag. Árni hóf að gefa skýrslu í dag, en hann er næstsíðasta vitnið sem kemur fyrir dóminn.

Árni segir að í byrjun ársins hafi legið fyrir að bankarnir væru í vanda vegna lausafjárstöðu þeirra. Þá vantaði fjármagn en staðan væri góð að öðru leyti. „Við áttum fundi með forstjóra Fjármálaeftirlitisins, ég og Geir, skömmu áður en hann fór í ferð til útlanda þar sem hann var að fjalla um stöðu bankanna," sagði Árni. Þetta hafi verið í mars. „Þá er staðan sú að þeir séu sterkir og það sé ekki ástæða til að hafa áhyggjru af því að eignasöfnin séu ekki í lagi, vandamálið sé aðgangur þeirra að fjármagni," sagði Árni um skilaboðin frá Fjármálaeftirlitinu.

Árni segir að fleiri vísbendingar hafi bent til hins sama. Skýrsla frá Seðlabanknum um vorið og svo aftur um haustið hafi gefið sömu vísbendingar. Álagspróf Fjármálaeftirlitsins bendi til hins sama og aldrei komi neitt út sem gefi tilefni til að breyta þeim hugmyndum að þetta sé aðallega aðgangur að fjármagni sem bankarnir þurfi að leysa úr.

Eftir að Árni hefur lokið við að gefa skýrslu fyrir dómnum má búast við að Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, gefi skýrslu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×