Innlent

Andri: Ákæruatriðin falla ekki undir forsætisráðherra

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Andri Árnason undirbýr málflutning sinn fyrir Landsdómi.
Andri Árnason undirbýr málflutning sinn fyrir Landsdómi. mynd/ gva.
Fjármálaeftirlitið, bankarnir og tryggingasjóður innistæðueigenda heyrðu undir viðskiptaráðuneytið en ekki forsætisráðherra, sagði Andri Árnason, verjandi Geirs H. Haarde, fyrir Landsdómi í morgun. Hann hóf málflutning sinn fyrir dómnum klukkan níu í morgun en Sigríður Friðjónsdóttir lauk málflutningi sínum í gær. Andri sagði að það væri því byggt á því af hálfu ákærða, að ákæruatriðin falli alls ekki undir forsætisráðherra.

„Eftir hrun hafa komið upplýsingar um það að starfsemi íslensku bankanna hafi verið miklu áhættusæknari en talið var,“ sagði Andri. Þess vegna hafi þeir notið óverðskuldaðs trausts. Hann bætti við að birt uppgjör bankanna og álagspróf Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins hafi ekki gefið tilefni til mikilla athugasemda. Forsendur til þvingana hafi þvi verið takmarkaðar með meðalhófsreglum. Slíkar þvinganir hefðu komið af stað hruni sem verið var að forðast.

Þá benti Andri á að Geir hafi ekki gefist tækifæri til þess að svara fyrir sakarefnin með verjanda áður en að ákæra var gefin út. Það stríði gegn meginreglum sakamálalaga.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×