Sport

Helga Margrét keppir í sinni fyrstu þraut á árinu um næstu helgi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Helga Margrét Þorsteinsdóttir.
Helga Margrét Þorsteinsdóttir.
Ármenningurinn Helga Margrét Þorsteinsdóttir hefur nú hafið sitt innanhússtímabil og er búin að keppa í fimm greinum á tveimur mótum undanfarið, fyrst á Reykjavíkurleikunum um síðustu helgi og svo á móti í Norrköping í Svíþjóð um helgina.

Á Reykjavíkurleikunum stökk Helga Margrét 1.73 metra í hástökki sem var allt í lagi að mati Vésteins Hafsteinssonar en hún á þar best 1.77 metra. Hann var hinsvegar mun ánægðari með 800 metra hlaupið hennar þar sem hún hljóp á 2.12,85 mínútum sem er að hans mati ótrúlega góður árangur.

Í gær keppti Helga Margrét í Norrköping í Svíþjóð. Hún hlóp 60 metra grindarhlaup á 8.92 sekúndum en þar á hún best 8.69 sekúndur. Hún kastaði 14.74 metra í kúluvarpi þar sem hún á best 15.01 metra og loks stökk hún 5.68 metra í langstökki en þar er hennar besti árangur 5.92 metrar.

Vésteinn Hafsteinsson segir í fréttatilkynningu að Helga Margrét muni keppa í sinni fyrstu fimmtarþraut innanhúss um næstu helgi í Tallinn í Eistlandi. Íslandsmet hennar í fimmtarþraut eru 4205 stig og telur Vésteinn að Helga eigi stóra möguleika á að bæta það met gangi allt upp hjá henni.

„Helga er jákvæð og finnst hún vera á réttri leið eftir erfiðan seinni part sumarsins 2011 og miklar breytingar sem fylgdu í kjölfarið með flutningi hér út, háskólanámi, nýjum áherslum í æfingum, nýjum þjálfara o.s.frv.," segir í fréttatilkynningunni frá Vésteini.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×