Handbolti

Oddur: Helmingsmöguleiki að ég komist á HM

Henry Birgir Gunnarsson skrifar

Akureyringurinn Oddur Gretarsson er einn þeirra leikmanna sem þarf að berjast fyrir sæti sínu í HM-hópi Íslands. Þrír vinstri hornamenn eru í hópnum sem stendur en Guðmundur þjálfari tekur aðeins tvo með sér til Svíþjóðar.

„Ég held það sé 50/50 séns á því að ég komist með. Maður veit ekkert hvað þjálfararnir eru að hugsa og maður verður því bara að reyna að standa sig sem best á æfingum og sýna hvað maður getur. Ef maður fær svo tækifæri um helgina þá þarf maður að standa sig," sagði Oddur.

Hann minnti rækilega á sig með landsliðinu á síðasta ári. Nýtti tækifærin sín afar vel og stendur hugsanlega ágætlega að vígi i baráttunni um HM-sæti.

Hornamaðurinn hefur vakið athygli út fyrir landsteinana en hann býst við því að klára tímabilið með Akureyri hvað svo sem síðar verður.

„Það eru smá viðræður í gangi en ekkert alvarlegt. Ég fer mér hægt og er ekki að stökkva á bara eitthvað. Ég er mest að horfa til Þýskalands og þar eru lið í næstefstu deild. Ég held það sé þægilegast fyrir mig að byrja þar en maður veit aldrei. Maður veit ekki hvað gerist síðar í vetur en ég klára tímabilið með Akureyri."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×