Innlent

Eins og að vera í Sahara-eyðimörkinni

Fólkið ók yfir jökul, sem þó leit ekki lengur út eins og jökull, heldur eyðimörk. Mynd/Karl ólafsson
Fólkið ók yfir jökul, sem þó leit ekki lengur út eins og jökull, heldur eyðimörk. Mynd/Karl ólafsson
„Þetta er harla ótrúlegt – sandauðn eins langt og augað eygir,“ segir Karl Ólafsson leiðsögumaður, sem hélt að Grímsfjalli á Vatnajökli í fyrradag til að skoða eldvirknina í Grímsvötnum og aðstæður fyrir væntanlega ferðamenn þangað nú í sumar.

„Þetta lítur út eins og maður sé kominn í miðja Sahara-eyðimörkina uppi á stærsta jökli Evrópu,“ bætir hann við. Brúnleit gjóskan hafi lagst yfir jökulinn og, eðli máls samkvæmt, gjörbreytt ásýnd hans.

Hópurinn, tæplega 20 manns á fjórum bílum, fór býsna nálægt gígnum, sem Karl segir að hafi þó verið við það að hverfa þegar fólkið bar að. Þó stóðu reglulega úr honum hundrað metra háir strókar sem fleygðu stærðarinnar grjóthnullungum tugi metra í loft upp.

Karl ræður fólki eindregið frá því að ferðast mikið um svæðið á næstunni. „Það er mjög mikið hættuspil,“ segir hann og ekki nema fyrir vana fjallamenn, og jafnvel þeir skyldu ráðfæra sig við lögreglu og björgunarsveitir áður en lagt er upp.

Ástæðuna segir hann vera þá að sjóðheitir grjóthnullungar hafi kastast í loft upp og stungist ofan í ísinn, grafið þar göng og myndað mjög varasöm dý – holrúm undir ísnum, full af drullu og vatni.

- sh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×