Enski boltinn

Kaka óttaðist um ferilinn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Kaka kemur inn á fyrir Karim Benzema í leiknum gegn Getafe.
Kaka kemur inn á fyrir Karim Benzema í leiknum gegn Getafe. Nordic Photos / AFP

Brasilíumaðurinn Kaka óttaðist að hann myndi neyðast til að hætta í knattspyrnu vegna þeirra meiðsla sem hann glímdi við stóran hluta síðasta árs.

Kaka gekkst undir aðgerð á hné síðastliði sumar en lék sinn fyrsta leik með Real Madrid á tímabilinu er liðið vann 3-2 sigur á grönnum sínum í Getafe á mánudaginn var.

„Ég varð stundum hræddur þegar ég velti fyrir mér hvenær ég myndi byrja aftur eða hvort mér tækist það yfirleitt," sagði Kaka í samtali við spænska fjölmiðla.

„Ég verð nú að vinna mér sæti í liðinu enda er það frábært um þessar mundir," bætti hann við en Kaka hefur verið sagður til sölu hjá Real Madrid.

Kaka segir að Jose Mourinho, stjóri Real Madrid, hafi sýnt sér mikinn stuðning en að það hafi verið engu að síður verið erfitt að vera utan vallar svo lengi.

„Ég saknaði þess mest að hitta liðsfélagana - að æfa með þeim, vera með þeim í búningsklefanum og spila með þeim fyrir framan stuðningsmenn okkar. Ég bjó ekki yfir þeirri gleði sem ég fæ með því að spila. Nú get ég spilað aftur og ég mun því reyna að endurheimta gleðina á ný."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×