Innlent

Búið að óska eftir að­stoð pólsku lög­reglunnar vegna úraráns

Meintur samverkamaður færður fyrir dómara.
Meintur samverkamaður færður fyrir dómara.

Lögreglan á Íslandi hefur óskað eftir því að pólsk lögregluyfirvöld færi tvo menn, sem eru grunaður um að hafa rænt verslun Michelsen á Laugaveginum vopnaðir byssum í síðasta mánuði, og eru staddir í Póllandi, til skýrslutöku. Þá er þeim gert að finna þann þriðja, sem ekki er vitað um.

Þetta kemur fram í úrskurði Hæstaréttar þar sem gæsluvarðhald er staðfest yfir fjórða manninum, sem er einnig af pólskum uppruna, en hann var handtekinn hér á landi skömmu eftir ránið.

Í úrskurðinum kemur fram að maðurinn, sem var handtekinn hér á landi, hafi falið úrin mjög vel í bifreið sinni. Þau hafi verið falin í pakkningum inn í hurðum bílsins.

Maðurinn neitar alfarið sök og heldur því fram að hann hafi kynnst pólskum manni síðasta sumar, sem hafi greitt honum fé fyrir að smygla einhverju frá Íslandi.

Maðurinn heldur því fram að sá sami hafi komið úrunum fyrir í bílnum, en sjálfur hafi hann ekki vitað hverju átti að smygla. Framburður hans þykir fjarstæðukenndur samkvæmt dómsorði.

Andvirði úranna, sem var stolið, var um 50 milljónir króna.

Lögreglunni tókst að endurheimta allt þýfið áður en það tókst að smygla góssinu úr landi. Samverkamenn mannsins, sem var handtekinn hér á landi, voru handteknir í Póllandi stuttu eftir ránið. Þeim var þó sleppt þar sem enginn framsalssamningur er á milli landanna.

Maðurinn, sem var handtekinn hér á landi, skal sæta gæsluvarðhaldi til 8. desember.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×