Enski boltinn

Robin van Persie tekinn formlega við fyrirliðabandinu hjá Arsenal

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Robin van Persie var fyrirliði á móti Newcastle um síðustu helgi.
Robin van Persie var fyrirliði á móti Newcastle um síðustu helgi. Mynd/Nordic Photos/Getty
Arsenal hefur nú staðfest það að það verði Hollendingurinn Robin van Persie sem taki við fyrirliðabandinu af Cesc Fabregas sem var seldur til Barcelona í gær. Þetta kemur ekki á óvart enda hefur van Persie borið fyrirliðabandið undanfarið þegar Fabregas hefur ekki notið við.

„Hann er leiðtogi vegna þess hvernig hann spilar, hvernig hann hegðar sér og hversu mikið hann vill vinna," sagði Arsene Wenger, stjóri Arsenal.

„Hann er búinn að vera lengi hjá félaginu og hann hefur líka verið í fararbroddi í taktík. Thomas Vermaelen mun aðstoða hann. Ég hef tekið þessa ákvörðun og ég er sannfærður um að liðið bregðist vel við þessu," sagði Wenger.

Robin van Persie er 28 ára gamall og hefur spilað með Arsenal frá árinu 2004. Hann hefur spilað 231 leik (95 mörk) fyrir félagið þar af 157 þeirra í ensku úrvalsdeildinni (66 mörk).

„Ég er búinn að vera í boltanum í meira en tíu ár og veit alveg hvað er ætlast til af fyrirliðanum. Ég hafði enga hugmynd um það þegar ég var 18 ára en nú er ég búinn að læra það hvernig hlutirnir ganga fyrir sig. Ég er tilbúinn í þetta," sagði Robin van Persie.

Fyrsti leikur Robin van Persie sem aðalfyrirliði Arsenal verður í kvöld þegar Arsenal og Udinese mætast á Emirates-vellinum klukkan 18.45 í forkeppni Meistaradeildarinnar. Leikurinn er í beinni á Stöð 2 Sport.

Seinni leikurinn fer síðan fram á Ítalíu í næstu viku. Það lið sem hefur betur í þessum tveimur leikjum kemst í riðlakeppni Meistaradeildarinnar en tapliðið fer í riðlakeppni Evrópudeildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×