Innlent

Skaftárhlaupið komið í byggð eftir sólarhring

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Skaftárhlaup er hafið. Þessi mynd er úr eldra hlaupi.
Skaftárhlaup er hafið. Þessi mynd er úr eldra hlaupi.

Sólarhringur gæti liðið þangað til að hlaupið í Skaftárdal gæti farið að sjást í byggð, segir Óðinn Þórarinsson framkvæmdastjóri athugana og tæknisviðs Veðurstofu Íslands. „Það eru tíu til tólf tímar í að við sjáum eitthvað vatn fara að vaxa við Sveinstind og þetta verður ekki komið niður í byggð í Skaftárdal fyrr en eftir sólarhring," segir Óðinn.



„Þetta eru fyrstu merki sem við erum að fá. Við erum með mæla á nokkrum stöðum í Skaftá," segir Óðinn. Hann segir að fyrsti mælirinn, sem er við Sveinstind, sýni fyrstu merki um að það sé að hefjast hlaup. „Það er ekki farið að vaxa neitt af vatni þar ennþá. Þetta eru merki sem við fáum frá svokölluðum gruggmæli, en þetta eru sterkar vísbendingar um að það sé eitthvað að byrja," segir Óðinn.



Óðinn segir að það hafi hlaupið úr báðum Skaftárkötlum í fyrrasumar þannig að ekki sé búist við stóru hlaupi núna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×