Fótbolti

Alfreð: Reynum að halda ró okkar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
„Við erum enn bara nokkuð brattir,“ sagði Alfreð Finnbogason um stöðu mála í íslenska U-21 landsliðshópnum eftir komuna til Álaborgar.

„Þetta var erfitt ferðalag í gær og kannski eru menn álíka þungir og Mihajlo Bibercic núna en menn verða flottir á æfingu seinni partinn,“ sagði Alfreð en af hverju Mihajlo Bibercic?

„Menn eru aðeins búnir að hugsa til hans þegar menn eru þungir á sér. Þá er aðeins skotið á þá. Við erum annars mjög léttir.“

Annars sagði Alfreð að leikmenn liðsins ættu ekki í vandræðum með að halda sér á jörðinni þrátt fyrir mikla tilhlökkun fyrir leikinn á laugardaginn.

„Það er gríðarlega umfjöllun um liðið og gott að við erum ekki lengur á Íslandi þar sem allt er örugglega að fara á annan endann. En með netinu erum við með hugann við Ísland.“

„Við reynum að halda ró okkur og kemur í ljós á laugardaginn hversu vel það hefur gengið.“

Ísland gat hvorki æft í gærkvöldi né í morgun eins og til stóð. „Við verðum bara að vinna úr þeim aðstæðum sem okkur er gefið og getum við ekki haft áhyggjur af því sem við getum ekki stjórnað. Við þekkjumst vel og erum samrýmdir.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×