Innlent

Ferðaþjónustuaðilar bjartsýnir á framhaldið

MYND/Jón Ólafur Magnússon
Ferðaþjónustuaðilar á Suðurlandi eru bjartsýnir um framhaldið þrátt fyrir erfiðleika undanfarinna daga, enda hefur dregið verulega úr gosinu og merki eru um að því sé jafnvel lokið. Markaðsstofa Suðurlands hvetur þá sem ætla að ferðast um Suðurland á næstu dögum og í sumar að fylgjast með fréttum næstu daga og afla sér upplýsinga áður en ferðaáætlunum er breytt.

Mikið hefur dregið úr gjóskuframleiðslu og öskufall er nú á afmörkuðu svæði. Rangárþing, Suðurströndin, Mýrdalurinn og uppsveitir Árnessýslu eru að mestu laus við ösku. Sigríður Dögg Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Ríkis Vatnajökuls, sem er ferðaþjónustu-, menningar- og matvælaklasi Suðausturlands, segir nokkurt öskufall hafa verið  í upphafi gossins en það sé nú að mestu horfið, veður sé fallegt og græni liturinn allsráðandi á túnum á ný.

„Búið er að undirbúa sumarið vel og á svæðinu í kringum Klaustur hefur gistirými verið aukið mikið frá því á síðasta ári. Ferðaþjónustan býður upp á ýmsa afþreyingu og er tilbúin til að taka á móti ferðamönnum og aðstoða við ferðir og skipulagningu þeirra,“ segir í tilkynningu.

Davíð Samúelsson, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Suðurlands segir að ferðaþjónustuaðilar taki þessu með jafnaðargeði enda séu þeir vanir nábýli við náttúruna og kunna bæði að takast á við hana og njóta hennar. „Nú eru þeir að búa sig undir að taka á móti ferðamannastraumnum aftur um leið og hringvegurinn opnast. Það er því  engin ástæða fyrir fólk sem ætlar að ferðast um Suðurland að afbóka, en við hvetjum fólk til að fylgjast með fréttum og afla sér upplýsinga."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×