Enski boltinn

De Gea: Ég er ekkert búinn að tala við United

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
David De Gea.
David De Gea. Mynd/Nordic Photos/Getty
David De Gea, markvörður Atletico Madrid, segir ekkert vera til í þeim sögusögnum að hann sé búinn að vera í viðræðum við Manchester United um að taka við af Hollendingnum Edwin van der Sar sem er að leggja skóna á hilluna í vor.

Bæði  Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United, og Miguel Angel Gil Marin, framkvæmdastjóri  Atletico, hafa einnig neitað því að félögin séu búin að ganga frá kaupum United á markverðinum. De Gea er aðeins tvítugur og það myndi kosta Manchester United 22 milljónir punda að kaupa upp samninginn hans við spænska félagið.

„Það er ekkert í gangi og þetta eru allt lygar," sagði David De Gea á blaðamannafundi. „Ég hef ekki heyrt af neinum tilboðum frá liðum, hvort sem það eru önnur félög eða Atletico að bjóða mér framlengingu," sagði David De Gea.

„Ég hef gefið þessu félagi allt mitt síðan að ég kom hingað og það mun halda áfram í dag og á morgun. Ég mun alltaf berjast fyrir Atletico. Stuðningsmennirnir hafa enga ástæðu til að vera óánægðir með mig. Við höfum bestu stuðningsmenn í heimi og ég veit að þeir munu styðja mig til lokadags," sagði De Gea.

David De Gea hefur spilað 31 leik í spænsku deildinni á þessu tímabili, hann hefur fengið á sig 41 mark og haldið marki sínu 10 sinnum hreinu. De Gea fékk á sig 28 mörk í 19 deildarleikjum í fyrra og hélt þá hreinu þrisvar sinnum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×