Handbolti

Marthe: Kominn tími á að klára dæmið

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
"Þetta leggst mjög vel í okkur. Við erum bara spenntar að spila þessa leiki enda búnar að bíða lengi," sagði Marthe Sördal, hornamaður Fram, um rimmuna sem fram undan er gegn Val í úrslitum N1-deildar kvenna. Fyrsti leikur liðanna er í kvöld.

"Við erum búnar að tapa Íslandsmeistaratitlinum síðustu þrjú ár. Ég held að það sé því kominn tími til að klára dæmið," sagði Marthe en Fram vann Val í bikarúrslitum fyrr í vetur en tapaði aftur á móti sannfærandi í báðum leikjunum í deildinni gegn Val.

"Að tapa þessum úrslitaeinvígjum á síðustu árum hefur gert okkur sterkari. Við mættum ekki tilbúnar í þessa leiki gegn Val í deildinni en það gerist ekki aftur."

Hvað telur Marthe að þurfi til svo Fram verði Íslandsmeistari?

"Við verðum að mæta tilbúnar til leiks og spila okkar sterku vörn. Svo þurfum við að keyra á þær og spila sóknina okkar."

Fram missir þær Kareni Knútsdóttur og Hildi Þorgeirsdóttur eftir tímabilið en Marthe segir að það sé samt bjart fram undan hjá þessu Fram-liði.

"Það er frábær breidd í þessu liði og það kemur maður í manns stað. Við erum nánast með tvö byrjunarlið," sagði Marthe sem er bjartsýn á einvígið.

"Þetta er árið sem við tökum tvennuna. Ég er klár á því. Annars þarf ég að éta það ofan í mig," sagði Marthe og brosti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×