Körfubolti

Mountain Dew-fíkli meinað að tyggja rör

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Butler með rörið í kjaftinum.
Butler með rörið í kjaftinum.

Caron Butler, leikmaður Dallas Mavericks, hefur þann sérstaka ávana að tyggja rör á meðan hann spilar körfubolta. Það má ekkert í NBA lengur því deildin hefur nú tekið fyrir þennan sérstaka sið leikmannsins. Honum hefur verið skipað að skilja rörin eftir heima.

Allt síðan Butler gekk í raðir Mavericks hefur þessi siður slegið í gegn og Dirk Nowitzki hitaði upp með rör í munninum um daginn. Það gerði hann í þeim eina tilgangi að stríða Butler. Stuðningsmenn félagsins voru síðan hvattir til þess að mæta með rör á völlinn til þess að styðja leikmanninn.

Það á örugglega eftir að reynast Butler erfitt að spila án röranna enda hefur hann haft þennan sið síðan hann var unglingur. Hann segist fara í gegnum 12 rör í leik.

„Þetta róaði mig niður og síðan varð þetta bara að vana," sagði Butler sem hefur haft aðra furðulega siði í gegnum tíðina. Hann var til að mynda háður gosdrykknum Mountain Dew.

Hann drakk í það minnsta sex stórar flöskur af Dew á dag meðan best lét. Er hann hætti að drekka gosið missti hann rúmlega 5 kíló.

„Það voru mikil fráhvarfseinkenni. Í alvöru talað þá voru fyrstu tvær vikurnar án Dew þær erfiðustu í mínu lífi. Ég er að tala um hausverki, svita og allan pakkann," sagði Butler en hann drakk alltaf Dew fyrir æfingar og eftir leiki lágu alltaf tvær Dew-flöskur í valnum.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×