Innlent

Haldið sofandi í öndunarvél

Starfsmanni Elkem er haldið sofandi í öndunarvél.
Starfsmanni Elkem er haldið sofandi í öndunarvél.

Starfsmanni járnblendiverksmiðju Elkem, sem brenndist illa í sprengingu fyrr í kvöld, er haldið sofandi í öndunarvél. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Elkem vegna málsins.

Í tilkynningunni segir að sprenging hafi orðið um klukkan hálf átta í kvöld. „Eldtunga og málmslettur brutust út úr einum af þremur ofnum verksmiðjunnar og brenndist starfsmaður sem þar var við vinnu alvarlega. Hann var fluttur á sjúkrahús og er haldið sofandi í öndunarvél á gjörgæsludeild."

„Ítarlegri viðbragðsáætlun Elkem er fylgt þegar aðstæður sem þessar skapast. Slökkt hefur verið á ofnum verksmiðjunnar og starfsemi hennar stöðvuð. Unnið er að rannsókn á tildrögum slyssins og verður upplýst nánar um málsatvik þegar frumathugun lýkur. Slökkvilið Akraness hefur ráðið niðurlögum þeirra elda sem kviknuðu og stendur nú brunavakt í verksmiðjunni. Sérfræðingar í áfallahjálp eru mættir í verksmiðjuna og sinna því starfsfólki sem var að störfum þegar óhappið varð. Stjórnendur Elkem á Íslandi harma þetta alvarlega vinnuslys. Samræmdar öryggiskröfur Elkem eru miklar og þrautreyndar en í kjölfar slyssins verða allir verkferlar yfirfarnir og gaumgæfðir eins og frekast er unnt," segir í tilkynningunni frá Elkem á Íslandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×