Viðskipti innlent

Jóhanna: „Erum líklega að ná samkomulagi við AGS“

Þorbjörn Þórðarson skrifar

Forsætisráðherra segir að ríkisstjórnin sé að ná samkomulagi við Alþjóðgjaldeyrissjóðinn um þriðju endurskoðun efnahagsáætlunar fyrir Ísland.

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, sagði eftir ríkisstjórnarfund í morgun að styrking krónunnar og lækkun verðbólgu gæfu fyrirheit um jákvæð teikn á lofti í efnahagsmálum. Þá er ríkisstjórnin bjartsýn á að AGS staðfesti þriðju endurskoðun efnahagsáætlunar fyrir Ísland. „Við erum líklega að ná samkomulagi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um þriðju endurskoðunina þannig að þetta virðist allt vera á réttri leið," sagði Jóhanna.

Þriðja endurskoðun efnahagsáætlunar fyrir Ísland verður tekin fyrir í stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins síðar í þessum mánuði. Það voru fleiri jákvæð tíðindi frá ríkisstjórninni, tengd efnahagsmálum, en endurskoðuðun efnahagsáætlunar fyrir Ísland hjá AGS. Gylfi Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, sagði að tölur um atvinnuþátttöku og hækkun raunlauna milli mánaða í fyrsta sinn fyrir hrun gæfu góðar vísbendingar um að þjóðin væri að komast út úr kreppunni. „Þó að við séum augljóslega ekki komin út úr henni að öllu leyti, en við erum a.m.k á réttri leið og maður fer nú bráðum að vona að hægt sé að lýsa því yfir að það leiki enginn vafi á því að botninum sé náð og við séum komin yfir hann," sagði Gylfi.

 

 










Fleiri fréttir

Sjá meira


×