Innlent

Segja tilmæli Seðlabanka „sorgleg“ og „út í hött“

Þorbjörn Þórðarson skrifar

Talsmenn skuldara segja að Fjármálaeftirlitið og Seðlabankinn gangi erinda fjármála og fjármögnunarfyrirtækja með tilmælum sínum sem séu sorgleg og út í hött. Þeir hvetja lánþega til að greiða ekki. Forstjóri FME segir að greiðsla í samræmi við tilmælin feli ekki í sér samþykki á nýjum lánaskilmálum.

Guðmundur Andri Skúlason er formaður Samtaka lánþega og er með bæði gengistryggt bílalán og húsnæðislán. Hann segir að Fjármálaeftirlitið og Seðlabankinn gangi erinda fjármála- og fjármögnunarfyrirtækja með tilmælum sínum um uppgjör gengistryggðra lána.

„Okkur finnst þessi tilmæli út í hött. Þau eiga sér ekki nokkra stoð í lögum, að Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið komi fram með svona tilmæli gegn nýföllnum hæstaréttardómi. Ég tel lánþega bregðast við með því að greiða ekki af gengislánum og við munum hvetja lánþega til að greiða ekki þar til réttaróvissu er eytt," segir Guðmundur Andri.

Fiðrik Ó. Friðriksson, formaður Hagsmunasamtaka heimilanna, tekur í sama streng. „Mér finnst þessi tilmæli sorgleg. Það er ekki verið að hugsa um hagsmuni heimilana," segir hann.

Fréttastofa óskaði í dag eftir upplýsingum hjá FME um hvort greiðsla í samræmi við hin nýju tilmæli FME og Seðlabankan fæli í sér samþykki á nýjum skilmálum lánasamninganna. Gunnar Þ. Andersen, forstjóri FME, sagði í samtali við fréttastofu að afborgun af láni með breyttum skilmálum í samræmi við tilmælin fæli ekki í sér samþykki skuldara á breyttum skilmálum og að skuldarar gætu því greitt af lánunum án þess að hafa áhyggjur af því. Gunnar sagði að tilmælin væru aðeins tímabundið úrræði þangað til dómstólar skæru endanlega úr um ágreininginn eða löggjafinn með nýrri lagasetningu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×