Erlent

Setti fangamyndir á Facebook

Fangar Myndirnar brjóta gegn reglum ísraelska hersins samkvæmt talsmanni hans, en ekki var ljóst í gær hvort herinn gæti refsað hermanninum fyrrverandi.
Fréttablaðið/AP
Fangar Myndirnar brjóta gegn reglum ísraelska hersins samkvæmt talsmanni hans, en ekki var ljóst í gær hvort herinn gæti refsað hermanninum fyrrverandi. Fréttablaðið/AP

Ísraelsk hernaðaryfirvöld og palestínsk stjórnvöld gagnrýndu í gær harðlega fyrrverandi hermann í ísraelska hernum sem birti myndir af sjálfum sér með palestínskum föngum á Facebook-síðu sinni.

„Ætli hann sé á Facebook? Ég þarf að merkja hann á myndinni,“ skrifaði hermaðurinn fyrir neðan myndina. Hermaðurinn heitir Eden Aberjil, samkvæmt Facebook-síðu hennar.

„Þessar myndir gefa innsýn í hugarheim hernámsliðsins,“ segir Ghassan Khatib, talsmaður palestínskra stjórnvalda. „Myndirnar sýna stoltið sem fylgir því að niðurlægja Palestínumenn.“

Talsmaður hersins fordæmdi einnig birtinguna og sagði að væri Aberjil ekki búinn að ljúka herþjónustu sinni væri lítill vafi á að hún hefði verið dregin fyrir herdómstól. Ekki er ljóst hvort einhver viðurlög bíða hennar.

Myndirnar þykja minna á myndir sem teknar voru af bandarískum hermönnum með íröskum föngum í Abu Ghraib-fangelsinu í Írak árið 2003. Myndir Aberjil sýna þó ekki að fangarnir hafi verið beittir ofbeldi eða niðurlægðir með svipuðum hætti og fangarnir í Abu Ghraib. - bj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×