Erlent

Enn eru 50 þúsund eftir í Írak

Allar bardagasveitir bandaríska hersins eru nú farnar frá Írak, rúmum sjö árum eftir að innrásin hófst og Saddam Hussein var steypt af stóli.

Enn eru þó 56 þúsund bandarískir hermenn eftir í landinu, en þeir eiga ekki að taka þátt í bardögum heldur takmarkast hlutverk þeirra við að þjálfa írakska hermenn og lögreglumenn.

Fyrir ágústlok eiga sex þúsund þessara hermanna í viðbót að yfirgefa landið, standi Barack Obama Bandaríkjaforseti við loforð sitt um að einungis 50 þúsund hermenn verði í landinu eftir ágústlok.

Hugmyndin er sú að þeir verði síðan allir farnir frá Írak að ári liðnu, en óvíst er hvort staðið verður við það.

Flestir voru bandarísku hermennirnir í Írak um 170 þúsund í lok ársins 2007, en í byrjun 2010 voru þeir tæplega 100 þúsund.

Önnur ríki hafa þegar kallað alla hermenn sína heim frá Írak.

Átökin í Írak hafa kostað um 4.400 bandaríska hermenn lífið. Óvíst er hve mörg mannslíf stríðið hefur kostað í heild, en lægstu tölur sem nefndar eru hafa verið í kringum 100 þúsund.- gb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×