Innlent

Stjórn Rúv staðfestir ráðningu Sigrúnar

Stjórn Rúv fundaði í gær um ákvörðun Páls Magnússonar að ráða Sigrúnu Stefánsdóttur dagskrárstjóra Sjónvarps. Svanhildur Kaaber, stjórnarformaður Rúv, segir stjórn Rúv staðfesta ráðninguna en almenn skoðun stjórnarinnar sé að auglýsa stöður.

"Stjórnin staðfesti það sem þegar hefur verið ákveðið, að Sigrún Stefánsdóttir gegni stöðu dagskrárstjóra Sjónvarps og útvarps þar til endanleg ákvörðun um hvernig þeim stöðum sé háttað liggi fyrir," segir Svanhildur.

Starf dagskrárstjóra Sjónvarpsins var auglýst og Erne Kettler ráðin í starfið. Vegna veikinda Ernu var Sigrún ráðin í staðin en hún hefur gegnt stöðu dagskrárstjóra Útvarps innan stofnunarinnar.

"Það er eitthvað sem stjórnin skoðar, hvort þessar tvær stöðu verði jafnvel sameinaðar í framtíðinni," segir Svanhildur.

Ari Skúlason, stjórnarmaður í RÚV, gagnrýndi ráðningu Sigrúnar og sagði það ekki eðlilegt að ráðið væri í stöður án auglýsingar.

Svanhildur segir stjórnina sátta við ráðningu Sigrúnar, "þarna komu upp aðstæður sem þurfti að bregðast við en það er almenn skoðun stjórnarinnar að það eigi að auglýsa stöður."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×