Körfubolti

NBA í nótt: Bosh setti stigamet er Toronto vann San Antonio

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Chris Bosh fagnar sigri í leiknum í nótt.
Chris Bosh fagnar sigri í leiknum í nótt. Mynd/AP

Chris Bosh varð í nótt stigahæsti leikmaður Toronto Raptors í sögu félagsins er hann skoraði 22 stig í sigri liðsins á San Antonio í NBA-deildinni í nótt, 91-86.

Bosh var einnig með fimmtán fráköst í leiknum en hann setti metið með látlausri körfu í þriðja leikhluta. Gamla metið átti Vince Carter en Bosh hefur nú skorað alls 9428 stig á ferlinum með Toronto.

Jarret Jack skoraði sextán stig í leiknum og Andrea Bargnani fimmtán. Hjá San Antonio var Tony Parker stigahæstur með 23 stig en Tim Duncan var með 21 stig og tólf fráköst.

San Antonio náði að minnka muninn í tvö stig þegar tólf sekúndur voru eftir af leiknum en nær komst liðið ekki.

Hedo Turkoglu lék ekki með Toronto þar sem hann lá heima með flensu.

Charlotte vann óvæntan útisigur á Cleveland, 91-88. Ronald Murray setti niður þrist þegar 56 sekúndur voru til leiksloka og dugði það til að tryggja Charlotte sigur í leiknum. LeBron James var með 29 stig fyrir Cleveland auk þess sem hann tók sjö fráköst og gaf sex stoðsendingar.

New York vann Indiana, 132-89. Wilson Chandler var með 23 stig fyrir New York, David Lee 22 stig og sextán fráköst.

Philadelphia vann Denver, 108-105. Allen Iverson skoraði sautján stig fyrir Philadelphia og Elton Brand sextán.

LA Lakers vann Dallas, 131-96. Jordan Farmar var stigahæsti leikmaður Lakers með 24 stig en alls skoruðu sjö leikmenn liðsins að minnsta kosti tíu stig í leiknum.



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×