Viðskipti innlent

Laun í bankakerfinu helmingi hærri en annarsstaðar

Sigríður Mogensen skrifar
Laun í bankakerfinu eru uppundir helmingi hærri en laun á almennum vinnumarkaði hér á landi. Meðallaun í stóru bönkunum þremur nema um hálfri milljón á mánuði, en laun sérfræðinga og stjórnenda hífa meðaltalið verulega upp.

Fréttastofa byggir þessa fullyrðingu á tölum frá samtökum starfsmanna fjármálafyrirtækja og úr ársreikningum bankanna. Íslandsbanki er eini bankinn sem birt hefur hálfsársuppgjör fyrir þetta ár, en fréttastofa studdist við ársuppgjör Arion og Landsbankans fyrir árið 2009.

Þess ber að geta að upplýsingar um launagreiðslur í bönkunum voru talsvert villandi í uppgjörsreikningum þeirra. Samkvæmt útreikningum eru meðallaun í Arion banka um 480 þúsund krónur á mánuði. Meðallaun í Landsbankanum rétt um hálf milljón og meðallaun hjá Íslandsbanka eru um 550 þúsund krónur á mánuði.

Meðallaun á almennum vinnumarkaði nema aftur á móti tæpum 370 þúsund krónum, ef marka má tölur Hagstofunnar fyrir síðasta ár.

Laun í bankakerfinu eru þannig um 40% hærri en meðallaun í þjóðfélaginu. Launastefnan í bönkunum er ekki ósvipuð því sem hún var fyrir hrun, að undanskildum ofurlaunum æðstu stjórnenda - sem hafa horfið.

Meðallaun þjónustufulltrúa nema um 320 þúsund á mánuði, miðað við launakönnun árið 2008. Samkvæmt upplýsingum frá samtökum starfsmanna fjármálafyrirtækja gefur sú launakönnun nokkuð rétta mynd af stöðunni í dag.

Laun sérfræðinga og stjórnenda hífa meðaltalið svo upp í um hálfa milljón. Þóknanir og aðrar launatengdar greiðslur eru ekki með í þessum upphæðum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×