Innlent

Almenningi áfram bannað að nálgast eldstöðina

Kristján Már Unnarsson skrifar

Eyjafjallajökull er enn að þenjast út og meðan svo er verður fólki áfram bannað að nálgast gosstöðvarnar, segir sýslumaður Rangæinga og yfirmaður almannavarna á svæðinu. Yfirvöld eru þó að skoða hvort unnt sé að veita almenningi betri aðgang að svæðinu.

Það er magnað að standa nærri eldspúandi gígunum og ekki að efa að þúsundir ef ekki tugþúsundir Íslendinga hefðu áhuga á að komast þangað. Almannavarnir banna hins vegar umferð á þá staði þar sem best er að sjá eldgosið.

Svæðið umhverfis eldsstöðina, í fimm kílómetra radíus, er lýst sem bannsvæði. Þá er umferð bönnuð bæði um Þórsmerkurveg og leiðina upp á Fimmvörðuháls.

Kjartan Þorkelsson sýslumaður segir það nú í skoðun hvernig unnt sé að bæta aðgengi almennings að svæðinu svo fólk geti séð gosið. Eins og staðan sé í dag sé Eyjafjallajökull enn að tútna út og meðan svo er telji menn það ekki gáfulegt að hleypa fólki upp á jökul og að eldstöðinni.

Fréttamenn Stöðvar 2 upplifðu það í leiðangri í fyrradag hvernig Fimmvörðuháls breyttist á örskammri stundu í veðravíti. Spurningin er hvort skipulagðar skoðunarferðir, undir stjórn þaulvanra manna og með besta tækjabúnaði, gæti verið lausnin, til dæmis að björgunarsveitir byðu upp á þá þjónustu gegn gjaldi að flytja ferðamenn á svæðið.

Kjartan sýslumaður segir almannavarnir ekki hafa velt því fyrir sér að selja aðgang að svæðinu, það sé ekki þeirra hlutverk að skipuleggja eitthvað slíkt. Það sé hins vegar ekki hlaupið að því að komast að þessu. Fimmvörðuháls sé mjög erfiður og þungur.

„Við erum aðallega að athuga með aðgengi inn í Fljótshlíðina að menn sjái gosið þaðan. Þaðan sést ágætlega inn á gosstöðvarnar," segir Kjartan.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×