Fótbolti

Sölvi Geir: Yrði stærra fyrir mig en að vinna sænska titilinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sölvi Geir Ottesen leikmaður SønderjyskE.
Sölvi Geir Ottesen leikmaður SønderjyskE. Mynd/Heimasíða SønderjyskE

Sölvi Geir Ottesen og félagar í danska liðinu SønderjyskE berjast fyrir lífi sínu í lokaumferð dönsku úrvalsdeildarinnar í dag. SønderjyskE tekur þá á móti Gunnari Heiðari Þorvaldssyni og Kára Árnasyni í liði Esbjerg og verður að ná í stig.

SønderjyskE er með 27 stig fyrir lokaumferðina eða þremur stigum meira en AC Horsens sem er í fallsæti og á enn möguleika á að bjarga sér. Til þess þarf liðið að vinna OB á útivelli og treysta á það að Esbjerg vinni SønderjyskE.

Sölvi Geir var í viðtali hjá danska Tips-blaðinu fyrir helgina og vakti það mikla athygli blaðsins að Sölvi fyndist það sætara að bjarga sér frá falli en það var að vinna sænska meistaratitilinn með Djurgården árið 2005.

„Það yrði stærra fyrir mig að SønderjyskE nær að halda sér í úrvalsdeildinni í fyrsta sinn en að vinna sænska titilinn með Djurgården. Ég upplifði mig ekki sem hluta af meistaraliðinu vegna þess að ég var meiddur og spilaði lítið. Þegar ég fagnaði titlinum með liðinu þá var ég að fagna árangri hinna leikmanna og liðsins en ekki að fagna árangri mínum," sagði Sölvi.

„Nú er þetta allt annað því ég á hlut í árangri SønderjyskE og það væri því mér miklu meira virði ef við næðum að halda SønderjyskE uppi," sagði Sölvi sem var valinn í íslenska A-landsliðið í síðustu viku.

Sölvi ætlar að fagna vel gangi allt upp í dag. „Við munum fagna því eins og við værum orðnir meistarar," sagði Sölvi bjartsýnn. Leikurinn hefst klukkan 15.00 að íslenskum tíma.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×