Fótbolti

Teitur og félagar töpuðu naumlega fyrri úrslitaleiknum

Ómar Þorgeirsson skrifar
Teitur Þórðarson.
Teitur Þórðarson. Mynd/Vancouver Whitecaps

Vancouver Whitecaps, undir stjórn Teits Þórðarsonar, tapaði naumlega 2-3 gegn Montreal Impact í fyrri leik liðanna í úrslitarimmu Norður amerísku USL-1 deildarinnar í nótt en leikið var á heimavelli Whitecaps.

Seinni úrslitaleikurinn fer fram á heimavelli Impact eftir viku og samanlagt skor úr leikjunum tveimur sker úr um hvaða lið verður meistari.

Whitecaps á titil að verja en lentu undir í leiknum í lok fyrri hálfleiks þegar varnarmaðurinn Shaun Pejic varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark.

Til þess að bæta gráu ofan á svart þá misstu Whitecaps fyrirliða sinn Martin Nash, bróður NBA-leikmannsins Steve Nash, út af með rautt spjalda snemma í seinni hálfleik og Nash missir því af seinni leik liðanna.

Whitecaps náði hins vegar að jafna leikinn þegar Marcus Haber, nýliði ársins í USL-1 deildinni, skoraði á 56. mínútu. Peter Byers kom Impact yfir á nýjan leik skömmu síðar en Whitecaps neituðu að gefast upp og Marlon James jafnaði leikinn stuttu síðar.

Allt leit út fyrir að jafntefli yrði niðurstaðan þegar Eduardo Sebrango skoraði sigurmarkið í blálokin og sá til þess að Impact er í bílstjórasætinu fyrir seinni leik liðanna á Saputo-leikvanginum í Montreal.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×