Fótbolti

Beckham segist ekki vera á förum frá LA Galaxy

Ómar Þorgeirsson skrifar
David Beckham.
David Beckham. Nordic photos/AFP

Stórstjarnan David Beckham ítrekar að hann njóti þess að spila fyrir LA Galaxy þrátt fyrir að sumir stuðningsmenn félagsins hafi ekki beint tekið honum með opnum örmum eftir fimm mánaða lánstíma hjá AC Milan og sakað hann um að leggja sig ekki nógu mikið fram fyrir lið sitt.

Beckham hefur verið sterklega orðaður við AC Milan, Tottenham og fleiri félög í sumar en LA Galaxy er talið vilja fá á bilinu 10-12 milljónir punda fyrir hinn 34 ára gamla leikmann.

„Þetta baul nokkurra stuðningsmanna hefur hvorki truflað mig né liðið og það er það sem skiptir máli. Ég nýt þess að spila fyrir LA Galaxy og finn fyrir stuðningi liðsfélaganna og stjórnarinnar og það er mjög mikilvægt," segir Beckham í samtali við Sky Sports fréttastofunnar.

Þó svo að Beckham fari ekki frá LA Galaxy í sumar er næsta víst að félög muni hrannast upp og gera tilkall til þess að fá hann á láni þegar tímabilið í MLS-deildinni klárast. Forráðamenn AC Milan hafa til að mynda gefið til kynna að dyr félagsins muni standa opnar fyrir Beckham vilji hann koma aftur þangað á láni.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×