Innlent

Of seint er að hrófla við landsdómi

Arndís Soffía Sigurðardóttir
Arndís Soffía Sigurðardóttir
Þurfi að kalla saman landsdóm til að fjalla um hugsanleg brot ráðherra, í kjölfar skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, verður það gert samkvæmt núgildandi reglum um skipan dómsins.

Forseti Alþingis, Ásta Ragnheiður Jóhannsdóttir, segir að ekki gefist tími til að breyta skipan í landsdóm áður en skýrslan kemur út 1. febrúar.

„En ég tel ástæðu til að endurskoða þessi lög og mun setja vinnu á laggirnar til þess samkvæmt ábendingu nefndar um eftirlitshlutverk Alþingis," segir Ásta.

Varaþingmaður VG, Arndís Soffía Sigurðardóttir, spurði forsetann um landsdóminn í síðustu viku, og var það í fyrsta skipti sem forseti Alþingis fékk fyrirspurn, eftir lögum frá 2007.

„Ég vildi kasta ljósi að Alþingi í þessu sjálfstæða eftirlitshlutverki gagnvart framkvæmdarvaldinu," segir Arndís. Mikilvægt sé að fá afstöðu forseta Alþingis fram, áður en skýrslan verður birt.

Gagnrýni hafi beinst að því pólitíska ívafi sem einkenni skipan átta dómara landsdóms af fimmtán, en þeir eru kosnir hlutfallskosningu af Alþingi. Arndís tekur undir þessi sjónarmið en um leið önnur, að endurskoðun á þessum reglum gæti vakið grunsemdir um að hún færi fram, lituð af ríkjandi aðstæðum.

„Ég vil koma þessari umræðu af stað svo fólk sé meðvitað um þetta. Að það ríki sátt um landsdóm, en ekki tortryggni," segir Arndís.

- kóþ




Fleiri fréttir

Sjá meira


×