Formúla 1

McLaren gengst við refsingu Hamilton

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Lewis Hamilton, ökumaður McLaren.
Lewis Hamilton, ökumaður McLaren. Nordic Photos / Getty Images

Framkvæmdarstjóri McLaren-keppnisliðsins í Formúlu 1 sagði að liðið myndi gangast við refsingunni sem Lewis Hamilton fékk eftir keppnina í Kanada um helgina.

Hamilton lenti í árekstri við Kimi Raikkönen á akreininni við viðgerðarsvæðið í keppninni í gær sem varð til þess að báðir þurftu að hætta keppni. Hamilton hefur beðist afsökunar á þessu.

Þetta varð einnig til þess að Hamilton missti toppsætið í stigakeppni ökumanna en refsing hans er að hann þarf að byrja tíu sætum aftar í upphafi keppninnar í Frakklandi eftir tvær vikur en því sæti sem hann nær í tímatökunni.

„Þetta er hörð refsing en sanngjörn," sagði Martin Whitmarsh. „Refsingin er hörð að því leyti að þetta gerir honum mjög erfitt fyrir í Frakklandi. En við höfum ekkert að athuga við ákvörðun dómara keppninnar því hann varð valdur að árekstri sem hefði mátt forðast."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×