Viðskipti erlent

Flugrekstrarleyfi Alitalia í hættu

Merki Alitalia.
Merki Alitalia. Mynd/AFP
Svo getur farið að punkturinn verði settur aftan við sögu ítalska flugfélagsins Alitalia í dag en ítölsk flugmálayfirvöld hótuðu í dag að fella flugrekstrarleyfi félagsins niður skili stjórnendur þess ekki nýrri rekstraráætlun í lok dags. Framtíð flugfélagsins hefur hangið á bláþræði síðustu vikurnar en sjóðir félagsins eru tómir og hefur það ekki haft efni á að kaupa eldsneyti á þotur sínar. Þá tapar félagið tveimur milljónum evra á dag og fljúga vélar þess á bráðabirgðarleyfi. Hópur fjárfesta, sem lagði fram tilboð í flugfélagið fyrir nokkru síðan, dró það til baka í síðustu viku eftir að verkalýðsfélög starfsmanna flugfélagsins náðu ekki sameiginlegri niðurstöðu um hvort því skuli taka eður ei. Þótt verkalýðsfélögunum tillögur fjárfestanna fela of mikla uppstokkun á rekstrinum í för með sér. Til stóð að setja 1,4 milljarða evra í reksturinn, selja óarðbærar eignir og segja upp allt að þrjú þúsund starfsmönnum. Silvio Berlusconi, forsætisráðherra Ítalíu, hefur þrýst á forsvarsmenn verkalýðsfélaganna að hittast á ný og reyna að blása til nýrra viðræðna til að forða flugfélaginu frá þroti. Ítalska ríkið er stærsti hluthafi flugfélagsins.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×