Fótbolti

Hermann skoraði í sigri Portsmouth

NordicPhotos/GettyImages

Hermann Hreiðarsson nýtti tækifærið vel í kvöld þegar hann var í byrjunarliði Portsmouth í fyrsta sinn í langan tíma. Hann skoraði þriðja og síðasta mark liðsins í 3-0 sigri þess á hollenska liðinu Heerenveen í Evrópukeppni félagsliða.

Tony Adams knattspyrnustjóri tefldi fram nokkuð breyttu liði frá tapleiknum um helgina og setti Hermann m.a. í byrjunarliðið. Hann þakkaði fyrir sig með því að skora þriðja mark liðsins í blálokin. Peter Crouch skoraði hin tvö. Þegar var ljóst að enska liðið kæmist ekki áfram í keppninni.

Í hinum leiknum í E-riðli gerðu AC Milan og Wolfsburg 2-2 jafntefli í Mílanó. Massimo Ambrosini og Pato gerðu mörk heimamanna en Christian Zaccardo og Mahir Saglik mörk þýska liðsins.

Í F-riðli unnu lærisveinar Martin Jol í Hamburg öruggan 3-1 sigur á Aston Villa og tryggðu sér efsta sætið í riðlinum. Ivica Olic skoraði 2 mörk fyrir Hamburg en Steven Sidwell var rekinn af velli í lokin. Villa var þegar búið að tryggja sér sæti í 32 liða úrslitum.

Í þessum sama riðli gerðu svo Ajax og Slavia Prag 2-2 jafntefli.

Í G-riðli vann FC Kaupmannahöfn 1-0 sigur á Club Brugge og St. Etienne og Valencia skildu jöfn 2-2.

Í H-riðli vann Deportivo 1-0 sigur á Nancy og Feyenoord tapaði 1-0 heima fyrir Lech Poznan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×