Viðskipti erlent

Öfgakenndar sveiflur á Wall Street

Öfgakenndar sveiflur voru á bandarískum hlutabréfamarkaði í dag. Fjármálaskýrendur segja ástæðuna liggja í þeim taugatitringi sem gætir á meðal fjárfesta. Þannig féll gengi hlutabréfa talsvert við upphaf viðskiptadagsins vestra í dag eftir að opinberar tölur sýndu fram á samdrátt í framleiðslu. Orðrómur um hugsanlegan samruna netleitarfyrirtækisins Yahoo og Microsoft fór á ný á kreik í dag og keyrði það upp gengi hlutabréfa í fyrirtækinu. Hækkunin smitaði út frá sér til annarra fyrirtækja og rauk Nasdag-vísitalan, sem samanstendur af fyrirtækjum í tæknigeiranum, upp um 5,49 prósent. Þá hækkaði Dow Jones hlutabréfavísitalan um 4,68 prósent. Associated Press-fréttastofan hefur eftir sérfræðingum vestanhafs að fátt jákvætt liggi í loftinu um þarlent efnahagslíf. Reikna megi með fleiri dögum líkt og í vikunni þar sem vísitölur rjúka upp og niður um nokkur prósent.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×