Innlent

50 til 60 kíló af amfetamíni um borð í bátnum

50 til 60 kíló af ætluðu amfetamíni voru um borð í smyglskútunni á Fáskrúðsfirði. Fimm Íslendingar hafa verið handteknir vegna málsins. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Europol. Aðgerðir lögreglu hafa farið fram í Danmörku, Færeyjum og í Noregi auk Íslands. Tveir hafa verið handteknir í Danmörku og einn í Noregi.

Aðgerð lögreglunnar, sem nefndist Pólstjarnan, hefur staðið yfir í langan tíma samkvæmt heimildum Europol. Hún var undir stjórn fíkniefnadeildar lögreglunnar í Reykjavík í samstarfi við Ríkislögreglustjóra og Landhelgisgæsluna. Þá var unnið í samsarfi við lögregluyfirvöld í Danmörku, Færeyjum, Þýskalandi, Hollandi og Noregi. Tengiliður íslensku lögreglunnar hjá Europol sá um samstarfið.

Haft er eftir Haraldi Johannessen ríkislögreglustjóra að hann sé ánægður með árangurinn sem náðst hafi í gengum Europol. Tengiliðurinn hjá Europol hafi borgað sig.

Áætlað götuverðmæti efnanna nemur að minnsta kosti hálfum milljarði íslenskra króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×