Innlent

Lítil áhrif á fíkniefnamarkaðinn

Þórarinn Tyrfingsson, yfirlæknir á Vogi.
Þórarinn Tyrfingsson, yfirlæknir á Vogi. MYND/HH
Fíkniefnafundur lögreglunnar á Fáskrúðsfirði mun ekki hafa mikil áhrif til verðhækkana á fíkniefnamarkaði til langs tíma litið að mati Þórarins Tyrfingssonar, yfirlæknis á Vogi. Hann segir nægt magn fíkniefna nú þegar til staðar hér á landi til að anna eftirspurn.

„Okkar reynsla sýnir að þegar svona gerist þá hækka vímuefni í verði í stuttan tíma," segir Þórarinn; „Verðhækkanirnar ganga hins vegar fljótt til baka."

Lögreglan lagði hald á tugi kílóa af ætluðum fíkniefnum í skútu á Fárskrúðsfirði í morgun. Nokkrir hafa verið handteknir vegna málsins en um er að ræða stærsta fíkniefnafund Íslandssögunnar að sögn Stefáns Eiríkssonar, lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins.

Þórarinn segir allt benda til þess að næg fíkniefni séu nú þegar til staðar í landinu og svona stór fundur hafi því lítil áhrif. „Í landinu er þegar ákveðið magn af fíkniefnum. Markaðurinn virkar sterkur og stöðugur. Það er auðvitað gleðilegt þegar lögreglan nær svona stórum förmum. Hins vegar er ólíklegt að áhrifanna eigi eftir að gæta lengi á fíkniefnamarkaðinum."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×