Innlent

Tugir barna notið hágæslu

Lóa Pind Aldísardóttir skrifar

Börn sem notið hafa hágæslu á Barnaspítala Hringsins skipta tugum, segir yfirlæknir á vökudeild spítalans.

Í mars á síðasta ári var viðtal í fréttaskýringaþættinum Kompási við foreldra sem urðu

fyrir þeirri átakanlegu reynslu að barn þeirra dó í örmum þeirra á hlaupum frá Barnaspítalanum til gjörgæslu. Í kjölfarið varð mikil umræða um nauðsyn þess að koma upp hágæsluherbergi svokölluðu á Barnaspítalanum. Fram kom að sextíu milljónir kostaði árlega að reka slíkt hágæsluherbergi. Þremur dögum eftir Kompás þáttinn gáfu Jóhannes í Bónus og börn hans tvö spítalanum 300 milljónir sem myndu dreifast á fimm ár - nægan pening til að reka hágæslu í fimm ár.

Tveimur mánuðum síðar var aftur viðtal í Kompási og þá við foreldra lítillar stúlku sem þurftu sjálf að vaka yfir henni á spítalanum þar sem enn var engin hágæsla á spítalanum. Síðan hafa engar fréttir borist af málinu. Þegar fréttastofa hafði samband við Atla Dagbjartsson, yfirlækni á vökudeild Barnaspítalans, í dag sagði hann að hágæslan hefði verið rekin frá því í haust. Síðan þá hefðu tugir barna notið gæslunnar, en nákvæma tölu hafði hann ekki á takteinum. Gjöfin hefði nýst í fyrsta lagi til að hafa hjúkrunarfræðing stöðugt á vakt yfir barni sem er í hágæslu, í öðru lagi væri nú hægt að hafa sérfræðing á vakt í húsi allan sólarhringinn, en áður var hann á bakvakt. Í þriðja lagi hefði verið hægt að endurmennta starfsfólk. Atli sagði þó að hágæslan væri enn í mótun og skipulagið yrði endurskoðað í haust.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×