Erlent

Rússar hóta að reka 80 breska diplomata úr landi

Óli Tynes skrifar
Frá Moskvu.
Frá Moskvu.

Rússar hafa hótað að reka 80 breska diplomata úr landi í hefndarskyni fyrir brottrekstur fjögurra rússneskra diplomata frá Bretlandi. Rússarnir voru reknir vegna tregðu stjórnvalda til þess að framselja meintan morðingja rússneska njósnarans Alexanders Litvinenkos.

Rússar telja sig órétti beitta. Þeir benda meðal annars á að Bresk stjórnvöld hafi á undanförnum árum neitað að framselja fjölmarga rússneska glæpamenn sem þar hafi fengið hæli. Það sé því tvískinningur hjá Bretum að gera svona mikið úr því að fá ekki einn mann framseldan.

Viðbrögð Rússa, ef þeir reka áttatíu menn úr landi fyrir fjóra, eru býsna harkaleg. Þau eru þó í fullu samræmi við sívaxandi hörku þeirra í alþjóðlegum samskiptum. Veldi Rússlands eykst stöðugt, ekki síst vegna gríðarlegra orku-auðlinda þeirra. Vestur Evrópa fær þegar yfir fjórðung af gasi sínu og olíu frá Rússlandi.

Á undanförnum misserum hafa Rússar hiklaust lokað fyrir olíu og gas til nágrannaríkja sem þeir hafa átt í útistöðum við. Það hafa þeir enn ekki gert við Evrópu. Stjórnmálaskýrendur segja hinsvegar að það sé grundvallaratriði í stefnu Vladimirs Putins forseta að koma því til skila að Rússar séu ekki lengur í sárum eftir að Sovétríkin liðuðust í sundur.

Rússland sé nú aftur orðið stórveldi í heimsmálunum og það sé eins gott að því sé sýnd tilhlýðileg virðing.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×