Erlent

CBS gerir raunveruleikaþátt með börnum

Bandaríska sjónvarpsstöðin CBS mun sýna nýjan raunveruleikaþátt næsta haust þar sem fylgst er með 40 krökkum, á aldrinum átta til 15 ára, í yfirgefnum draugabæ í Nýju-Mexíkó. Hlutverk krakkanna er að koma upp samfélagi sem gengur snuðrulaust fyrir sig.

Þátturinn er mjög umdeildur en á sama tíma bíða margir spenntir eftir honum. Hann verður með svipuðu sniði og aðrir raunveruleikaþættir, það er að keppendur eru reknir úr þættinum uns aðeins einn krakki stendur eftir sem sigurvegari. CBS tókst að taka upp heila seríu án þess að fjölmiðlar svo mikið sem vissu af hugmyndinni um þáttinn.

Mörg vandamál tengdust því að framleiða sjónvarpsþátt með börnum. Vinnulöggjöf heimilar þeim ekki að vinna nema ákveðið marga tíma á dag, mun minna en þau síðan gerðu í þættinum. Til þess að leysa það var tökustaðurinn sagður sumarbúðir og krakkarnir þátttakendur í leik.

Framleiðendur þáttarins segja að krakkarnir hafi verið frábærir og engin vandamál komið upp við gerð hans. Engin slys urðu og allir voru sáttir. Í raun hafi sést hversu góðir krakkar geta verið. Á móti hafi hins vegar komið í ljós að þegar krakkar ætla sér að verða vondir, séu þeir hreint og beint hryllilegir.

CBS er þegar farið að leita að þátttakendum fyrir næstu seríu. Þegar þetta er skrifað hefur Vísir ekki heimildir um hvort að serían verði sýnd á Íslandi. Þátturinn mun að öllum líkindum heita „Kids Nation."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×