Innlent

Ekki talið að Íslendingar tengist málinu

Guðjón Helgason skrifar
Rússnesk kona sem kom til Íslands í vikunni játað í yfirheyrslu að hafa komið til Íslands gagngert til að stunda vændi. Rannsókn lögreglu hefur ekki leitt í ljós að Íslendingar tengist málinu.

Konan, sem kallar sig Ornellu, kom hingað á mánudaginn og dvaldist á hóteli í Reykjavík þar sem blíða hennar var seld. Fréttastofa Stöðvar 2 fjallaði um málið á þriðjudagskvöldið og reyndi að ná tali af konunni. Reykjavíkurheimsókn hennar var auglýst rækilega á rússneskri vefsíðu.

Eftir umfjöllun Stöðvar 2 um málið var konunni vísað af hótel Nordica og hún kölluð til yfirheyrslu í gær. Samkvæmt upplýsingum frá kynferðisbrotadeild lögreglu Höfuðborgarsvæðisins játaði konan að hún hefði komi gagngert til Íslands til að stunda vændi.

Vændi er ólöglegt en refsilaust á Íslandi nema þriðji aðili tengist málinu. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu tengist konan fylgdarþjónustu í Frakklandi. Konan hefur að öllum líkindum verið gerð út af þeim sem hana reka. Ekki er búist við að mál verði sótt gegn fylgdarþjónustunni.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu kom ekkert fram í málinu sem bendir til að Íslendingar tengist því. Athygli vekur þegar vefsíða fylgdarþjónustunnar er skoðuð að verðlistinn hjá hverri konu miðar við þjónustu í Moskvu annars vegar og öðrum borgum hins vegar.

Fylgdarþjónustan sendir konur til starfa í ýmsum borgum. Þegar skoðað er hvar starfsemi fylgdarþjónustunnar er í boði á næstunni, er það eingöngu í Parísar eða Nice í Frakklandi. Því stingur Reykjavíkurtilboðið í stúf og vekur spurningar um hvort fyrirtækið hefur samverkamenn hér á landi.

Mál konunnar verðu sent ákæruvaldinu hér á Íslandi en ólíklegt er talið að hún verði kærð. Konunni verður ekki vísað úr landi en samkvæmt upplýsingum fréttastofu mun hún ætla sér af landi brott hið fyrsta.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×