Erlent

Bandarísk stjórnvöld funda vegna hryðjuverkahættu

Jónas Haraldsson skrifar
MYND/AFP

Stjórnvöld í Bandaríkjunum hafa kallað helstu löggæslustofnanir landsins saman á áríðandi fund vegna hættu á hryðjuverkum í landinu.

Boðað var til fundarins í gær eftir að nýjar upplýsingar komu í ljós eftir misheppnuðu sprengjutilræðin í Lundúnum nýverið. Helstu yfirmönnum leyniþjónustna og löggæslustofnanna hefur verið gert að hittast í Hvíta húsinu og leggja fram stöðuskýrslur um hvað sé verið að gera til þess að koma í veg fyrir hugsanlegar árásir. Þá verður einnig rætt um hvernig sé hægt að auka öryggisráðstafanir við opinberar byggingar. Háttsettur opinber starfsmaður sagði frá þessu.

Viðbúnaðarstig í Bandaríkjunum er hærra en verið hefur í þó nokkurn tíma. Hvíta húsið hefur þó neitað að staðfesta að nýju upplýsingarnar séu alvarlegri eða áreiðanlegri en þær sem það hafði fyrir. Það segir þó að hvernig tilræðin í Lundúnum voru skipulögð gefi hugmynd um hugsanlegar aðferðir hryðjuverkamanna í Bandaríkjunum og því þurfi opinberar stofnanir að bregðast við og tryggja að slík tilræði muni ekki ganga upp. Michael Chertoff, heimavarnarráðherra Bandaríkjanna, segir hryðjuverkaárás líklegri í sumar en oft áður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×