Erlent

Krefst þess að bresk stúlka verði látin laus

Jónas Haraldsson skrifar

Umaru Yar'Adua, forseti Nígeru, hefur krafið mannræningja þar í landi um að láta þriggja ára breska stúlku lausa án tafar en henni var rænt í vikunni. Hann hefur skipað öryggissveitum að tryggja að henni verið skilað heilu og höldnu til foreldra sinna. Móðir stúlkunnar segir mannræningjana hafa hótað að myrða hana ef þeir fái ekki föður hennar í skiptum fyrir hana.

Móðir stúlkunnar skýrði frá þessu í gær. Ræningjarnir hringdu í hana og báðu mann hennar að hitta sig í smábæ fyrir utan Port Harcourt í Nígeríu, sem er í suðurhluta landsins. Hvorki lögreglan né foreldrarnir gátu fundið bæinn og rann fresturinn sem mannræningjarnir gáfu út. Viðræður um lausnargjald fyrir stúlkuna standa nú yfir.

Stúlkunni var rænt þegar verið var að fara með hana á leikskólann. Port Harcourt er stærsta borgin við ósa Níger-ánnar en þaðan kemur nítíu prósent af olíu landsins. Engu að síður er fátækt útbreidd á svæðinu.

Mannrán eru því algeng á svæðinu en fleiri en eitt hundrað erlendum starfsmönnum fyrirtækja hefur verið rænt það sem af er ári. Flestum er þeim þó sleppt ómeiddum gegn greiðslu. Aðaluppreisnarhópurinn á svæðinu, MEND, hefur fordæmt ránið á stúlkunni. Talsmaður hans sagði jafnframt að liðsmenn MEND myndu hjálpa til við leitina að stúlkunni og refsa þeim sem ráninu komu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×