Erlent

Málverk seldist á 2,2 milljarða

Jónas Haraldsson skrifar

Málverk eftir endurreisnarlistamanninn Raphael seldist á uppboði í gær fyrir meira en 2,2 milljarða íslenskra króna. Verkið er af ítalska greifanum Lorenzo d'Medici, forföður þess sem nú er á skjánum í Bachelor þáttunum á Skjá einum. Verkið hafði ekki sést opinberlega síðan árið 1968.

Síðast þegar það var selt, árið 1968, var deilt um uppruna þess og seldist það þá aðeins á 20 þúsund íslenskar krónur. Listfræðingar hafa í seinni tíð sannfærst um að Raphael hafi málað verkið og því hækkaði verðið.

Forsaga málverksins er ansi áhugaverð. Leó páfi tíundi lét Raphael mála það í þeim tilgangi að senda til Madeleine de la Tour d'Auvergne, konu sem hann hafði ákveðið að ætti að giftast frænda sínum Lorenzo. Lorenzo fékk svo samskonar málverk af henni. Ekki ósvipað og gerist nú á dögum á einkamálavefum víðs vegar um veröldina.

Myndirnar virðast hafa skilað sínu því Lorenzo og Madeleine, sem var frænka Henrys fyrsta, konungs Frakka, giftust og áttu saman dótturina Katrínu d'Medici. Hún giftist síðar Henry öðrum, konungi Frakklands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×