Erlent

Segir björgunarfólk hafa valdið dauða sonar síns

Sigríður Guðlaugsdóttir skrifar

Faðir manns sem lést í flóðunum í Bretlandi í síðustu viku segir klúður björgunarfólks hafa valdið dauða sonar hans. Hjálparsveitum tókst ekki að losa manninn úr holræsi og hann lést eftir þriggja klukkustunda baráttu. Sláandi myndir af vettvangi voru birtar í dag.

Michael Barnett heimsótti dánarstað sonar síns í Hessle nálægt Hull þar sem hann lést 25. júní síðastliðinn. Fólk hefur lagt blóm við holræsið þar sem annar fótur Mike sonar hans festist í rist. Á þessum myndum Sky sjónvarpsstöðvarinnar sem ekki hafa verið sýndar áður sést hvernig höfði Mikes er haldið ofan vatnsyfirborðsins og það er augljóst að honum er kalt og hann er hræddur. Faðir hans vill að myndirnar verði sýndar til að sýna hversu illa aðgerðinni var stjórnað og að enginn tók beina stjórn á staðnum.

Michael sagði að slökkvilið, lögregla, sjúkralið og kafarar hafi rifist um hvað ætti að gera og hvað ekki.

Nokkrar tilraunir voru gerðar til að losa ristina sem fótur Mikes var fastur í. Í einni þeirra dróst Mike niður undir yfirborðið í 20 sekúntur. Kafari sem ekki var tilbúinn sést hér setja á sig gleraugun í flýti, en það var um seinan, ekki tókst að losa ræsið. Faðirinn segist hafa stungið upp á aflimun við björgunarmenn, en þeir hafi óttast sýkingu í skítugu vatninu sem gæti dregið hann til dauða.

Rannsókn er nú hafin á málinu. Alan Johnson þingmaður Verkamannaflokksins á svæðinu segir að allt gerði gert til að komast til botns í orsökum á dauða Michaels. Læra yrði af atvikinu til að forðast að svipuð atvik endurtaki sig.

Michael lést að því að talið er úr ofkælingu eftir nokkurra klukkustunda baráttu í vatninu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×