Erlent

Alan Johnston sleppt eftir fjóra mánuði í haldi mannræningja

Jónas Haraldsson skrifar
Mannræningjar hafa sleppt breska fréttamanninum Alan Johnston eftir að hafa haldið honum í nærri fjóra mánuði.

Johnston sagði það stórkostlegt að vera loksins frjáls eftir þessa hörmulegu lífsreynslu. Hann yfirgaf hús á Gaza-svæðinu og birtist síðan stuttu síðar á fréttamannafundi ásamt leiðtoga Hamas á svæðinu, Ismail Haniyeh, og þakkaði öllum sem komu að frelsun hans, en það voru Hamas samtökin sem höfðu milligöngu um lausn hans. Johnston var látinn laus snemma í morgun eftir að háttsettur klerkur hafði gefið út trúarlega tilskipun, eða Fatwa, þess efnis.

Johnston var rænt þann 12. mars síðastliðinn af hóp sem kallar sig Her íslam, sem er hópur vígamanna frá Gaza svæðinu. Þremur myndböndum var lekið á internetið og á tveimur þeirra sást Johnston. Á þeim var fullyrt að ef reynt yrði að frelsa hann með valdi yrði hann myrtur. Kröfur hópsins fyrir því að frelsa hann voru að Bretar myndu leysa úr haldi áhrifamikinn klerk með tengsl við al-Kaída. Johnston sagði í morgun að hópurinn hefði haft meiri áhuga á því að vinna gegn Bretum en deilunni á milli Palestínu og Ísraels. Þá tók hann einnig fram að eftir að Hamas tók völdin á Gaza svæðinu hefðu mannræningjarnir farið að ókyrrast.

Talsmaður Hamas sagði í morgun að engir samningar hefðu verið gerðir við mannræningjana. Hann tók líka fram að Hamas hefði ekki frelsað Johnston til þess að öðlast velvild Vesturveldanna, heldur hefðu þau gert það vegna mannúðarástæðna og til þess að stuðla að auknu öryggi á Gaza svæðinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×