Erlent

Stjórnvöld í Brasilíu heita því að bæta aðstæður í fátækrahverfum

Fátækrahverfi í Rio de Janeiro
Fátækrahverfi í Rio de Janeiro MYND/AFP

Stjórnvöld í Brasilíu hafa heitið því að verja um 90 milljörðum íslenskra króna til að bæta ástandið í fátækrahverfum í Rio de Janeiro og ná tökum á skipulagðri glæpastarfsemi þar. Um milljón manns búa í fátækrahverfunum.

Luiz Inacio Lula da Silva, forseti landsins, segir að fjárfesting í rennandi vatni og annarri grunnþjónustu sé besta leiðin til að uppræta glæpastarfsemi. "Ef ríkið sér ekki til þess að þjónusta á svæðinu sé viðunandi munu dópsalar og glæpamenn gera það," segir forsetinn. Hann vill að hverfin fái betra gatnakerfi, götulýsingu, skóla og sjúkrahús.

Forsetinn hefur varið aðgerðir lögreglu sem nýlega réðust gegn glæpagengjum með þeim afleiðingum að 19 létust. Fréttaritari BBC fréttastofunnar í Sao Paulo segir að stjórnin virðist ákveðin í því að koma í veg fyrir að fíkniefnagengi veiti þjónustu sem ríkisstjórnin ætti að veita.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×