Erlent

Ákvörðun Bandaríkjaforseta umdeild

Guðjón Helgason skrifar

Bush Bandaríkjaforseti náðaði í gær að hluta Lewis "Scooter" Libby, fyrrverandi aðstoðamann Cheneys, varaforseta. Demókratar á Bandaríkjaþingi hafa fordæmt ákvörðun forsetans og segja hann misnota vald sitt.

Libby var í síðasta mánuði dæmdur í tveggja og hálfs árs fangelsi fyrir að hindra framgang réttvísinnar í rannsókn lögreglu á því hver lak í fjölmiðla nafinu á fyrrverandi CIA njósnaranum Valerie Plame. Bush Bandaríkjaforseti tilkynnti í gær, öllum að óvörum, að hann ætlaði að náða Libby að hluta. Samkvæmt fyrirmælum forseta fer Libby ekki í fangelsi en þarf þó að halda skilorð í tvö ár og borga jafnvirði nærri 16 milljónum íslenskra króna í sekt.

Bush sagði dóminn og þungann og taldi því rétt að grípa inní. Þessi ummæli segir saksóknari í málinu að standist ekki - allir séu jafnir fyrir lögunum og dómurinn samkvæmt þeim. Háttsettir andstæðingar forsetans á þingi segja ákvörðunina svívirðilega. Hún fari á spjöld sögunar sem geðþóttaákvörðun sem hafi verið tekin til þess eins að aðstoða náin samstarfsmann varaforsetans, en Libby var um tíma starfsmannastjóri hans. Stjórnmálaskýrendur segja niðurstöðuna málamiðlun. Forsetinn hafi viljað náða Libby að fullu en sátt náðst um þessa niðurstöðu.

Málið gegn Libby hefur vakið mikla athygli. Skömmu eftir að nafni Plane var lekið komu fram ásakanir þess efnis að Hvíta húsið hafi gert það til að valda eiginmanni hennar vandræðum. Sá er fyrrverandi sendiherra og var í Írak á árunum 1988 til 1991. Í aðdraganda Íraksstríðsins gagnrýndi hann rökin fyrir innrás opinberlega.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×