Erlent

Orðsporið gæti orðið fjötur um fót

Guðjón Helgason skrifar

Íranar eru ósáttir við skipan Tonys Blairs, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, sem sérlegs sáttafulltrúa um lausn deilna fyrir botni Miðjarðarhafs. Breskur prófessor í stjórnmálafræði telur að orðspor hans geti orðið honum fjötur um fót.

Blair hætti sem forsætisráðherra Bretlands á miðvikudaginn. Hann var þá skipaður sérstakur erindreki fjórveldanna svo kölluðu, það er Bandaríkjanna, Evrópusambandsins, Sameinuðu þjóðanna og Rússlands, sem reyna að miðla málum fyrir botni Miðjarðarhafs.

Ísraelar fögnuðu skipan hans en þó af varfærni. Palestínumenn voru lítt hrifnir og sögðu hann ekki mann í verkið. Nú taka Íranar undir það. Mohammad Ali Hosseini, talsmaður íranska utanríkisráðuneytisins segir Blair ekki hafa nægilega góðan bakgrunn til verksins og nægilega gott orðspor í þessum heimshluta. Hann er illa liðinn af mörgum Aröbum vegna stuðnings Breta við innrásina í Írak.

Clive Archer er prófessor í stjórnmálafræði við Manchester Metropolitan háskóla og kennir nú við sumarskóla Rannsóknarseturs um smáríki við Háskóla Íslands. Hann tekur undir þetta og segir orðsporið geta orðið honum fjötur um fót.

Hann að Blair hafi orðið fyrir valinu vegna vinskapar við Bush Bandaríkjaforseta en ekki síst vegna árangurs í friðarferlinu á Norður-Írlandi. Hann á þó ekki von á að það gangi jafn vel að leysa deilurnar í Mið-Austurlöndum - þær séu mun erfiðari viðureignar. Blair sé þó maður sem leggi mjög hart að sér og hann gæti náð einhverjum árangri sökum þess.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×