Erlent

Óttast árás

Guðjón Helgason skrifar

Breska lögeglan segir ljóst að hryðjuverkaárásin á Glasgow flugvelli í gær tengist bílsprengjunum sem fundust í miðborg Lundúna í fyrradag. Fimm hafa verið handteknir og fleiri er leitað. Hæsta viðbúnaðarstig er nú í gildi á Bretlandi - sem þýðir að yfirvöld telja að árás sé yfirvofandi.

Viðbúnaðarstigið var aukið í gærkvöldi. Breska lögreglan handtók konu og mann á þrítugsaldri í nótt og mann á þrítugsaldri í Liverpool í dag. Leit gerð í tveimur húsum þar í borg og einnig í húsum í Newcastle og Glasgow. Fyrir voru tveir menn í haldi skosku lögreglunnar. Þeir voru á bílnum sem ekið var logandi inn í aðal flugstöðina í borginni í gær. Annar liggur þungt haldinn á sjúkrahúsi enda kviknaði í fötum hans. Hann er sagður í lífshættu og með brunasár á níutíu prósent af líkama sínum.

Sprengjusérfræðingar hersins voru kallaðir að sjúkrahúsinu síðdegis og þeim falið að fjarlægja og sprengja grunsamlega bifreið sem óttast var að ætti að nota til hryðjuverka.

Á blaðamannafundi síðdegis sagði talsmaður lögreglu að skýr tengsl væru milli árásarinnar í gær og tveggja bílsprengja sem fundust í miðborg Lundúna í fyrradag. Hann óskaði eftir aðstoð almennings við rannsóknina. Gordon Brown, forsætisráðherra sagði slíkt hið sama. Hann sagði að borgarar yrðu að vera á varðbergi. Skilaboðin sem yrðu að berast frá Bretlandi og Bretum væri að þeir ætluðu ekki að brotna niður, þeim yrði ekki ógnað og allt yrði gert til að koma í veg fyrir að grafið yrði undan lífstíl þeirra.

Prinsarnir Vilhjálmur og Harry fór að orðum forsætisráðherrans og aflýstu ekki minningartónleikum um móður sína, Díönu prinsessu, sem haldnir voru á Wembley leikvanginum í dag. Díana hefði orðið fjörutíu og sjö ára í dag hefði hún lifað og áratugur í næsta mánuði frá því hún lést í bílslysi í París. Meðal þeirra sem skemmtu gestum voru Duran Duran, Elton John, Tom Jones, P. Diddy, Joss Stone og ungstyrnið Lily Allen.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×