Erlent

Naglar, gas og bensín í sprengjunni í Lundúnum

Jónas Haraldsson skrifar

Lögreglan í Lundúnum fann og gerði óvirka sprengju sem fannst í bíl nærri Piccadilly Circus í miðborginni í nótt. Sprengjan er sögð hafa verið stór. Sprengjusveit lögreglunnar var kölluð til og sprengdi hún hana í loft upp. Í bílnum fundust naglar og mikið af bensíni og gasi í kútum.

Ein af heimildum BBC innan lögreglunnar sagði að um stórt tæki hefði verið að ræða og að allt hverfið í kring hefði verið í mikilli hættu vegna sprengjunnar. Vitni sögðu að þau hefðu séð lögreglu bera gaskúta úr bílnum, sem var silfurlitaður Mercedes Benz.

Dyraverðir í næturklúbbi í hverfinu sögðu að bílnum hefði verið ekið óreglulega þangað til hann hefði klesst á ruslatunnu. Ökumaðurinn hefði þá látið sig hverfa.

Sjúkrabíll var kallaður að næturklúbbi í hverfinu og sáu sjúkraflutningamenn reyk standa upp úr bílnum. Þeir létu lögregluna vita og kom hún þá á vettvang. Stuttu síðar var sprengjan gerð óvirk.

Hryðjuverkadeild lögreglunnar í Lundúnum er nú að rannsaka málið. Mikill fjöldi rannsóknarmanna er á staðnum en bíllinn hefur verið fjarlægður af staðnum. Lögreglan lýsir nú eftir vitnum að mannaferðum við bílinn og er sem stendur að skoða myndbönd úr eftirlitsmyndavélum í miðbænum.

Neðanjarðarlestarstöðin á Piccadilly Circus er lokuð vegna atburðanna og almenningsvögnum er beint inn á aðrar leiðir. Þúsundir komast ekki til vinnu sinnar vegna atburðarins.

Ekkert er vitað um hver gæti borið ábyrgð á sprengjunni en yfirvöld segja ýmsa möguleika í stöðinni. Eftirlit hefur verið hert til muna í miðborg Lundúna vegna atviksins en lögreglan útilokar ekki að fleiri sprengjur gæti verið að finna í borginni.

Neyðarnefnd breska ríkisins, COBRA, mun funda síðar í dag vegna málsins. Það var aðeins í gær sem ný ríkisstjórn Gordons Brown fundaði í fyrsta sinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×