Erlent

Íranar í samkeppni við BBC og CNN

Íranar ætla sér að setja á fót fréttastöð til þess að keppast við BBC og CNN. Markmið hennar verður að hjálpa umheiminum að komast undan ægishjálmi vestrænna fjölmiðla. Stöðin mun heita PressTV og fer í loftið þann 2. júlí næstkomandi. Þetta kemur fram á íranska fréttavefnum FARS.

Stöðin ætlar að byggja upp á svipaðri forskrift og BBC og CNN. Fréttir verða á hálftíma fresti og síðan verða umræðuþættir og heimildarmyndir þar á milli. Dagskráin og efnistökin verða þó með írönsku sniði.

PressTV er hliðarverkefni alþjóðadeildar íranska ríkissjónvarpsins. Yfirmaður deildarinnar, Mohammas Sarafraz, sagði nauðsynlegt að almenningur út um allan heim sæi aðra hlið á menningu múslima og íslam en sýnd er í vestrænum fjölmiðlum. Fleiri en 400 manns munu vinna við stöðina og 26 fréttamenn verða staðsettir erlendis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×