Erlent

Stöðuvatnið sem hvarf

Jökulvatn í Chile tók upp á þeirri óþægilegu nýjung að láta sig hverfa. Vísindamenn eru ráðþrota og engar vísbendingar er að finna um hvert það brá sér. Vatnið var í Suður-Andes fjöllunum og þegar þjóðgarðsverðir fóru um svæðið í mars var það á sínum stað, um tveir hektarar að stærð, blandað misstórum ísjökum. Þeir fóru síðan aftur í síðasta mánuði og þá var það horfið.

Ísinn sem flaut áður ofan á vatninu lá nú á botni þess eins og fiskur á þurru landi. Ein kenningin er sú að jarðskjálfti hafi orðið til þess að glufa myndaðist á botni vatnsins og það hafi einfaldlega lekið í burtu. Stór jarðskjálfti varð nálægt svæðinu í apríl síðastliðnum.

Jöklasérfræðingurinn Andres Rivera sagði að hvarf jökulvatnsins væri einfaldlega merki um síbreytileika landslagsins. Það hefði til að mynda ekki verið þarna fyrir 30 árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×